Listdansbraut

Grunnnám á listdansbraut JSB hefst með fornámi, 7–9 ára. Kennsla er skv. Jazzballettnámi á almennri braut þar sem uppbygging fornáms felst í klassískum ballet, jazz og spuna/leikjum. Nemendur hefja nám á Listdansbraut JSB við 10 ára aldur þ.e. samkvæmt 2. stigi aðalnámsskrár menntamálaráðuneytisins.

228168_1976379729813_1252690207_2310011_7327110_n

Grunnnámið er kröfuhart listdansnám sem miðar að undirbúningi fyrir nútímalistdansbraut á framhaldsskólastigi.

Við lok grunnáms eiga nemendur að hafa öðlast tæknilega færni og listræna kunnáttu til að hljóta inngöngu á nútímalistdansbraut við framhaldsskóla. Lokamarkmið eru þau sömu og tilgreind eru í aðalnámsskrá og er vísað í aðalnámsskrá vegna nánari útlistunar.

Inntökuskilyrði er á listdansbrautina og eru inntökupróf haldin á vorin. Nemendur eru teknir inn frá 10 ára aldri og skulu nemendur hafa lokið fornámi 6-9 ára hjá JSB eða hafa sambærilega undirstöðu í listdansi.

Vakin er athygli á að listdansbraut JSB er nútímalistdansbraut. Nemendum sem hyggja á listdansnám í framhaldsskóla á klassískri braut er bent á aðrar námsleiðir þ.e. listdansskóla þar sem klassíski ballettinn er í fyrirrúmi.

Námsmat

Próf eru þreytt tvisvar á ári, á haustin og vorin, við lok áfanga.
80% vægi: Metið er hvort nemandi hefur náð tæknilega tökum á námsefni, þekkingu, færni, sköpun, listrænni útfærslu og skilnings og hæfni nemandans með hliðsjón af markmiðum aðalnámskrár. 20% vægi: Mæting er 20% af vægi lokaeinkunnar.

Prófnefnd er skipuð af 2-3 fagaðilum auk umsjónakennara. Nemendur fá einkunn við lok hvers áfanga. Einkunnir eru gefnar í heilum tölum á bilinu 1-10. Hver einkunn merkir:

Listdansbraut

 • 1-3 – Fall
 • 4 – staðið án einingar
 • 5-6 – staðið:
 • 7-8 – staðið:
 • 9-10 – staðið:

Markmið Nútímadansbrautar

Nemandinn nái lykilatriðum og áherslum nútímadansins (sbr. Námskrá ) og geti yfirfært þá þekkingu og færni á eigin líkama. Þróa hjá nemandanum mýkt, styrk, tækni, líkams- og tónlistarvitund. Þróa þarf hæfni nemandans til listrænnar sköpunar og tjáningar sem og sjálfstæðrar hugsunar og vinnubragða. Með aukinni þekkingu og færni nemendans á nútímadansi eiga kröfurnar að aukast og skilningur nemandans að dýpka.

Viðmið fyrir einkunnagjöf

Gott - einkunn 5-6
Nemandinn dansar af einbeitingu og innlifun. Nemandinn hefur náð færni í lykilatriðum nútímadansins (sbr. Námskrá) og sýni það í hreyfingu. Hefur þróð hjá sér mýkt, styrk, tækni, líkams- og tónlistarvitund. Nemandinn hefur gert tilraun til listrænnar sköpunar og tjáningar sem og sjálfstæðrar hugsunar og vinnubragða.

Mjög gott - einkunn 7-8
Nemandinn dansar af góðri einbeitingu og innlifun. Nemandinn hefur náð góðri færni í lykilatriðum nútímadansins (sbr. Námskrá) og sýnir það í hreyfingu. Hefur þróað vel hjá sér mýkt, styrk, tækni, líkams- og tónlistarvitund. Nemandinn hefur sýnt góða tilraun til listrænnar sköpunar og tjáningar sem og sjálfstæðrara hugsunar og vinnubragða.

Ágætt - 9-10
Nemandinn dansar af mjög góðri einbeitingu og innlifun. Nemandinn hefur náð mjög góðri færni í lykilatriðum nútímadansins (sbr. Námskrá) og sýnir það í hreyfingu. Hefur þróað hjá sér mjög góða mýkt, styrk, tækni og líkams- og tónlistarvitund. Nemandinn hefur sýnt mjög góða tilraun til listrænnar sköpunar og tjáningar sem og sjálfstæðrar hugsunar og vinnubragða.

Skólasóknarreglur

Nemendur eru hvattir til að mæta stundvíslega í kennslustundir. Tilkynna þarf veikindi og fjarvistir. Ef veikindi verða í tvo daga eða lengur og eru vottuð af lækni telst aðeins helmingur viðkomandi fjarvistarstiga með til útreiknings á skólasóknareinkunn. Læknisvottorð verður að skila innan fimm daga eftir að veikindum lýkur

Leyfi er veitt til dæmis vegna:

 • tíma hjá sjúkraþjálfara
 • prófa í framhaldsskóla
 • Leyfi er ekki veitt fyrir utanlandsferðir nema í sérstökum tilfellum.

Skólasóknareinkunn er gefin eftir að tekið hefur verið tillit til veikinda og/eða leyfa:

 • Einkunn 10 = 95-100% skólasókn
 • Einkunn 9 = 92-94% skólasókn
 • Einkunn 8 = 89-91% skólasókn
 • Einkunn 7 = 86-88% skólasókn
 • Einkunn 6 = 83-85% skólasókn
 • Einkunn 5 = 80-82% skólasókn

Mæting undir 80%: nemandinn er fallinn og fær ekki að þreyta próf.

Fall í áfanga

Nemandi telst fallinn í áfanga ef hann/hún:
1. nær ekki lágmarkseinkunn
2. uppfyllir ekki mætingaskyldur
3. hættir í áfanganum eftir að frestur er útrunninn.
4. er vísað úr áfanganum eða skólanum

Nemendur sem falla hafa heimild til að taka áfanganum einu sinni aftur.
Fjarvist = -1
Seint = 0
Leyfi = - 0,25
Veikindi = - 0,25

Ath. taka þarf tillit til aðstæðna hverju sinni. Nemandi sem er með 70% mætingu og hefur verið frá vegna veikinda eða leyfis er hvattur til að bæta skólasókn á næstu önn. Leyfilegt er að veita nemanda heimild til að þreyta próf í áfanga ef kennarar meta svo vegna aðstæðna eftir tiltal við nemanda.