Besta líkamsræktin?

Steinunn3

Hvaða líkamsrækt er best?

Flestir sem stunda líkamsrækt kannast við að hafa frekar viljað hvíla sig en að fara í ræktina. Þeir sem drífa sig samt af stað þekkja hins vegar tilfinninguna sem góð líkamsrækt veitir. Léttur sviði eftir vöðvastyrkingu, gott blóðflæði, djúp og nærandi öndun eftir hressilegar þolæfingar og svo slökunin, liðleikinn og jafnvægið sem teygjuæfingarnar veita. Líðanin gefur til kynna að líkaminn fái það sem hann þarf og geti þannig þjónað manni vel.

Hvatningin.

Það kostar svolitla glímu við okkur sjálf að fá þessa upplifun. Annars vegar að koma okkur af stað þegar við erum ekki í stuði og hins vegar hvernig við tökum á málum þegar á hólminn er komið. Það er nefnilega alls ekki nóg að mæta bara í gallanum og bíða eftir því að þjálfarinn komi manni í form! Við þurfum að taka nógu vel á til þess að æfingarnar skili tilætluðum árangri og það gerir enginn fyrir okkur. Hvatningin þarf því að vera til staðar og þjálfunin þarf að miðast við ólíka getu og þarfir þeirra sem hana sækja.

Frábær líkamsrækt.

Góð líkamsrækt byggist á réttum æfingum en fábær líkamsrækt veitir manni áskorun að auki. Til þess að árangur náist þurfum við að vera vel vakandi og keppast við að ná settum markmiðum. Við þurfum að fyllast ákveðnum eldmóði, bjartsýni og krafti til þess að knýja okkur áfram við æfingarnar. Þessi þáttur þjálfunarinnar er afar mikilvægur, jafnframt því að ítreka gildi þess að læra að hlusta á eigin líkama og miða æfingarnar við eigin getu og ástand.

Fáðu nánari upplýsingar um það sem við höfum að bjóða á jsb.is

Steinunn Þorvaldsdóttir