Hvaða máli skiptir stundataflan?

steinunn1

Kæru JSB konur, velkomnar til starfa og hlökkum til að vinna með ykkur í vetur!

Hérna er smá hugleiðing fyrir okkur eftir fríið.

Hvaða máli skiptir stundataflan?

Hugsanlega skilur stundataflan einna mest eftir að skólanámi loknu.
Eitt er víst að við sækjum í reglufestuna sem hún veitir. Það felst svo mikið öryggi í að vita að hverju við göngum dags daglega og geta gert skýr skil á milli vinnu og hvíldar.

Núna þegar vetrarstarfið er að hefjast eftir sumarfrí sækjum við í þessa reglufestu. Með henni verða verkin, sem við bæði viljum og þurfum að vinna, aðgengilegri og gerir hún okkur því auðveldara að lifa í sátt við okkur sjálf.

Samspil vinnu og launa.
Líkamsræktin á ríkan þátt í að við náum þessari sátt. Þegar hún er fastur liður á dagskránni göngum við að henni eins og hverju öðru verki og þiggjum að launum hreysti og vellíðan. Ef við setjum hana ekki inn í dagskránna, hefur hún tilhneigingu til að sitja á hakanum og launar okkur lambið gráa líkt og annað sem við vanrækjum og virðum lítið.

Verðum að komast á klósettið!
Það er eins með ræktina og önnur verk að besti árangurinn næst með yfirvegun, skynsemi og þrautseigju. Þó að við viljum ná settu marki sem allra fyrst, þá þýðir ekki að byrja af slíku kappi að við komumst varla á klósettið næstu daga vegna harðsperra. Eftir frí þurfum við að byrja rólega og bæta svo í smám saman. Of mikið kapp getur tafið okkur í stað þess að flýta fyrir árangri.

Einu gildir hvaða tegund líkamsræktar á í hlut og hvar hún er stunduð. Ef hún felur í sér styrktarþjálfun, þolþjálfun og teygjur, í réttu hlutfalli og magni og á öruggan stað í dagskránni, þá er víst að hún gerir okkur lífið léttara.

Leggjum rækt við okkur og lifum góðu lífi!
Steinunn Þorvaldsdóttir