Hvernig er hversdagurinn?

steinunn1

Eins og flestir hlakka mikið til jólanna fylgir ekki alltaf jafnmikill fögnuður tilhugsuninni um janúar og byrjun nýs árs. Margir hafa sennilega reiknað með meira fríi um jólin, en reyndin er oft sú að þetta er frekar annasamur tími, ekki síst hjá „jólagerðarmönnunun“ sem sjá til þess að veislumaturinn sé á borðum, pakkarnir undir trénu og allt sé eins og það á að vera. Oft gerir fólk líka of miklar væntingar til svona hátíða sem er umhugsunarefni í sjálfu sér.

Þegar upp er staðið reynist nefnilega hreint ekki svo slæmt að hefja rútínuna sína aftur. Til að svo sé þarf tímataflan að vísu að vera þess eðlis að jafnvægi ríki milli starfs og leiks og að fólk ofbjóði sér ekki með of mikilli vinnu, eða óhófi af öðru tagi. Ef vægið er rétt milli þessara þátta og tími gefist til að leggja rækt við sjálfan sig til jafns við annað í lífinu, þá er engu að kvíða. Þvert á móti eru slíkir hvunndagar tími uppbyggingar sem skilar okkur góðri líðan.

Andstæðurnar sem felast í hátíðum og hversdagsleika vega hvor aðra skemmtilega upp. Tilhlökkunin um fríið, stemninguna og kræsingarnar heldur okkur gangandi hversdags. Svo þegar líða tekur á hátíðahöldin, er ekki laust við að ýmsir fari að hlakka til heilsusamlegri fæðu og meiri áskorunar en bóklesturs og fjölskylduboða.

Þeir sem fyllast kvíða og óttast virku dagana þurfa hins vegar að endurskipuleggja stundatöfluna sína og gera ráð fyrir sjálfum sér í því ferli. Snar þáttur í því að manni líði vel, jafnt andlega og líkamlega, felst í að gefa sér tíma til að stunda líkamsrækt. Þjálfunin getur verið með ýmsu móti en hún verður hins vegar að vera reglubundinn liður í dagskránni til að skila árangri.

Núna erum við komnar í fullan gang hérna hjá JSB, öll námskeið hafin og harðsperrur alls ráðandi. „Gottvont“ tilfinningin, sem kemur í kjölfar svona uppbyggilegra átaka, er hreint út sagt frábær. Innan skamms hverfa sperrurnar svo og við fyllumst starfsorku og vellíðan – og förum að hlakka til næstu frídaga!

Um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegs árs, vona ég að við höldum ótrauðar áfram að leggja rækt við okkur, lifa góðu lífi og láta boðskapinn ganga.

Kveðja Steinunn