Að halda sínu striki.

steinunn1

Það hefur löngum þótt strembið að þreyja þorrann og góuna hér á Íslandi. Myrkir og hryssingslegir vetrarmorgnar geta reynst erfiðir viðureignar og þarf því stundum að taka sig hressilegu taki til þess eins að komast fram úr á morgnana. Slíkt tekst ekki alltaf jafnvel eins og flestir þekkja.

Við reynum því að gera okkur tilveruna eins gleðilega og við getum á þessum árstíma. Því fögnum við þorra á ýmsan máta – oftast með mat og drykk – og svo fylgja bollusprengidagarnir fast á eftir sem við heiðrum að sjálfsögðu líka af mikilli samviskusemi!

Þegar líða fer á seinni hluta níu vikna námskeiðanna okkar hjá JSB fara ýmsar raddir að heyrast. Flestar á átaksnámskeiðunum eru farnar að sjá góðan og jafnvel frábæran árangur. Aðrar fyllast leiða og vonleysi ef bakslag verður á árangri eftir utanlandsferð, þorrablót, bolluát, eða saltkjötsneyslu. Einhverjar vilja að vigtin sýni mun lægri tölur þegar þær telja sig gera allt samkvæmt bókinni. Svo eru þær sem hafa áttað sig á hvað þeim er farið að líða miklu betur af því að stunda reglubundna líkamsþjálfun, burtséð frá öllu öðru, og finna hvað hún skilar mikilli orku og getu til að takast á við það sem að höndum ber.

Alltaf erum við að glíma við eitthvað, hvort sem það eru myrkir morgnar, holdafar og líkamshreysti, eða önnur verkefni. Árangurinn á það eðlilega til að vera upp og ofan, því að öll erum við mannleg. Holdafarið veldur oft heilabrotum því að líkaminn er flókið fyrirbæri sem við þurfum sífellt að vera að læra á. Einu gildir samt hver svo sem verkefnin eru – ef við viljum ná árangri, verðum við að halda okkar striki og villast ekki af leið þótt eitthvað fari úrskeiðis.

Mikilvægi reglubundinnar hreyfingar verður seint orðum aukið. Engu máli skiptir hverju við þurfum að sinna – líkamsþjálfunin gefur okkur andlega og líkamlega orku til að kljást við öll verk. Til þess að ávinningurinn verði samkvæmt væntingum veitir okkur sannarlega ekki af slíkum styrk. Enn og aftur hvet ég alla til að leggja rækt við sig og lifa góðu lífi!

Kveðja, Steinunn