Finndu þér tíma til að njóta aðventunnar

Núna er aðventan, eða jólafastan, nýhafin og samkvæmt könnun sem sagt var frá í upphafi mánaðarins voru ríflega 50% landsmanna farnir að jólaskreyta heima hjá sér. Það er margt sem kallar á slík viðbrögð í upphafi aðventu. Skammdegið er orðið ansi svart og þörfin fyrir birtu og upplyftingu því eðlilega mikil. Falleg jólaljós og skreytingar kalla líka á notalegar samverustundir og tilbreytingu frá hversdagsamstrinu með tilheyrandi veitingum og gleði. Það er af sem áður var þegar þetta var álitinn tími aðhalds og föstu áður en sjálf jólahátíðin gengi í garð og í hugum margra er aðventan jafnvel ennþá skemmtilegri en sjálf jólin.

Desember er því víða samfelldur tími veisluhalda auk þess sem líka er í mörg horn að líta varðandi undirbúning fyrir hátíðirnar. Tímanum sem hefur verið varið í líkamsrækt er því oft fórnað til að hægt sé að klára allt í tæka tíð. Því vill það verða svo að á aðventunni leggjum við minni rækt við okkur en aðra mánuði. Auðvitað er mikið að gera á þessum tíma og að sjálfsögðu þarf maður stundum að sleppa einu og öðru vegna anna. Það er líka alveg ágætt að brjóta aðeins upp rútínuna öðru hverju.

Hins vegar margborgar sig að detta ekki alveg út á þessum tíma og hugsa sem svo að það sé nú í góðu lagi að láta allt eftir sér af því að það eru að koma jól. Þó að maður þurfi að sleppa nokkrum skiptum úr ræktinni og þó að það séu jólahlaðborð og alls kyns boð í hrönnum, þá er maður ekki sjálfkrafa stikkfrí hvað mat og hreyfingu snertir allan desembermánuð. Markmiðið með jólaföstunni var jú að vera tilbúinn til að fagna, í stað þess að vera útkeyrður í þeim efnum þegar hátíðin gekk í garð.

Maður þarf ekki að hamast í ræktinni klukkutímum saman til að halda sér í formi. Það gefur líka góða raun að taka vel á í stuttum og snörpum lotum og alveg hægt að gefa sér tíma til slíkra æfinga inn á milli þótt dagskráin sé ströng. Það gefur manni aukinn kraft og vellíðan sem gerir þennan árstíma ennþá betri og skemmtilegri. Við skulum endilega gera vel við okkur á aðventunni og njóta hennar í botn. Hreyfum okkur líka og stígum aðeins á bremsuna þegar kemur að öllum kræsingunum.

Nýttu þér æfingakerfið okkar 1-2-3 og njóttu aðventunnar!

Steinunn Kr. Þorvaldsdóttir

Steinunn3