9 mánuðir og 20 kíló !

Haustið 2009 tók ég þá ákvörðun að núna væri tími til kominn að taka til í mínum ranni. Ég er reyndar oft búin að gera það yfirleitt með ágætis árangri en einhvern veginn hefur maður með tímanum farið aftur í sama farið. Ég var orðin leið á því og komin með viðvörunarljós á blóðþrýstinginn. Við óbreytt ástand hefði brautin bara legið niður á við með hættu á sykursýki 2 og bara allt sem fylgir því að vera of þungur í langan tíma. Læknirinn minn benti mér á að bara það að létta mig a.m.k. um 6 kíló myndi strax muna varðandi blóðþrýstinginn. Mig langaði ekki að fara á blóðþrýstingslyf þannig að nú varð ég bara að gera þetta af alvöru.

Ég ákvað að prófa Stutt og strangt hjá Fanneyju til að koma mér af stað. Leist svo vel á að læra almennilega á tækin í tækjasalnum og eins að fá ráðgjöf með matinn þ.e. hvað bæri að forðast og hvað væri gott að borða. Ég hef reyndar alltaf hreyft mig þrátt fyrir þyngd mína. Í námskeiðinu setur Fanney upp prógramm fyrir mann og hvetur okkur áfram. Það myndast góð stemmning í hópnum og við hvetjum hvor aðra þannig að þá er bara að halda áfram þó að það komi einhverjir þröskuldar. Þröskuldar eru bara verkefni sem þarf að yfirstíga. Fanney mælir með að taka 1 léttan dag í viku. Þessi létti dagur byggist á því að borða eingöngu grænmeti og svo að drekka vatn eins og alla aðra daga. Ég viðurkenni alveg að ég vorkenndi mér alveg svakalega á mínum fyrsta létta degi. Síðan ég fór svo að gera þetta í hverri viku þá er þetta bara ekkert mál. Mér finnst það frábært að brjóta vikuna aðeins upp með smá áskorun.

Það er skemmst frá því að segja að fyrsta Stutt og Strangt námskeiðið mitt gekk alveg rosalega vel. Frá 21 sept 2009 til 29 maí 2010 fuku 20,3 kg og 45 cm víðs vegar um skrokkinn. Ég tók mér stundum pásur á milli námskeiða en hélt svo áfram að hreyfa mig yfir sumarið. “Ég byrjaði aftur í Stutt og strangt núna í september. Ástæðan er einföld því næsta haust verð ég fimmtug og ég er búin að setja mér ákveðið markmið sem ég ætla að vera búin að ná fyrir afmælið mitt. Ég læt ykkur vita næsta haust hvernig það gekk”.

Má til með að bæta einu við varðandi fatastærðir. Núna get ég keypt mér föt í H&M (þaf ekki lengur að fara í BB deildina þeirra). Lane Briant er búð með yfirstærðum í USA sem ég hef verslað í þegar ég hef farið til Boston. Kíkti þangað síðasta haust og það bara passaði ekkert á mig því minnstu númerin hjá þeim voru orðin of stór á mig .

Takk kærlega fyrir mig Olga.