Bogga

Ég var búttuð sem barn og fram á unglingsárin en allt rann þetta nú af mér við kynþroskann. Um 16 ára aldurinn fór ég svo að fitna og næstu árin bætti ég smátt og smátt á mig kílóunum. Þau læddust afar hljóðlega á mig til að byrja með og lengi var ég "einungis" 10 kílóum yfir kjörþyngd. Ég var alltaf á leiðinni að taka þessi kíló af mér en það gekk ósköp hægt. Kílóunum fór síðan að fjölga hraðar en áður, þau bættust við fleiri og fleiri í einu...

Ég var afar ósátt við mig, fannst ég ómöguleg á allan hátt. Ég fór ekki í fataverslanir nema í neyð og þær ferðir voru yfirleitt árangurslausar. Ég skoðaði föt, tók með mér stærstu númerin inn í mátunarklefann og prófaði en oft kom ég ekki buxunum upp lærin á mér eða gat ekki hneppt blússunni. Ég þakkaði starfsfólkinu pent fyrir og dreif mig svo heim, oft grátandi af vonleysi.

Ég þoldi þetta ekki, ég þráði það svo virkilega að losna úr þessum viðjum en kom mér ekki í að taka á málunum. Ég var farin að finna fyrir þunglyndi og mikilli vanlíðan og oftast þegar mér leið illa eða var undir álagi þá borðaði ég mikið. Á tímabili þyngdist ég um 9kg á þremur mánuðum! Ég vissi alveg að ég var að þyngjast og það hratt en ég var orðin svo vonlaus í þessari baráttu að mér var alveg sama og fannst nú ekki muna um þessi kíló til viðbótar. Ef ég fann eitthvað á mig í fatabúðum sem mér líkaði, greip ég þau örvæntingarfull og keypti mér stundum 2 boli og 2 buxur eins, bara til þess að ég ætti einhver föt til að fara í. Fataverslanir voru hin mesta kvöl og pína og mér fannst skelfileg upplifun að skoða boli í XXL eða jafnvel stærra sem ég komst ekki einu sinni í.

Það var líka orðið erfitt að vera úti á meðal fólks. Ég kveið fyrir öllum mannamótum og vildi hafa mig sem minnst frammi. Stundum leið mér bara verulega illa í kringum fólk og sjaldan naut ég mín á mannamótun. Ég var oft að bera mig saman við aðrar konur á mínum aldri og fannst ég alltaf ómöguleg í samanburði við þær. Það má því segja að ég hafi brotið sjálfa mig niður andlega. Sjálfsálitið var ekkert og minnimáttarkenndin alger. Ég var eiginlega komin í þá stöðu að mér fannst ég verða að sætta mig við að vera orðin svona þung og ég sagði sjálfri mér að það væri eini möguleikinn í stöðunni því ég væri fyrir löngu búin að sanna það fyrir sjálfri mér að ég gæti ekki tekið þessi kíló af mér. Ég hafði svo oft reynt, svo oft byrjað og mistekist. Ég var alltaf að byrja aftur og falla. Sífelldar sjálfsblekkingar og hliðarspor gerðu mig vonlausa. Ég var hætt að gráta þó mér tækist ekki að fá á mig föt, ég var hætt að eiga von á því að fá á mig föt og ég byrjaði í megrunum vitandi það að ég myndi ekki ná árangri.

Hvað var ég búin að gera sjálfri mér?
Ég vildi helst aldrei láta taka af mér myndir en einn daginn var ég að skoða myndir og sá þá mynd af mér. Ég man að mé rbrá rosalega mikið. Ég sá sjálfa mig afmyndaða í framan af offitu, fannt ég vera orðin eins og "hinir" sem voru alltof þungir. Ég held að ég hafi þá áttað mig á því hvað vandamálið var orðið rosalega stórt hjá mér. Stuttu síðar stóð ég fyrir framan spegil og horfði á sjálfan mig. Hvað var ég búin að gera sjálfri mér? Ég var farin að finna til í liðum, farin að sofa illa og hreyfigetan orðin takmörkuð, fyrir nú utan lélegt þol. Á þessari stundu ofbauð mé rþetta og ég hugsaði með mér að mér væri engin vorkunn að taka á þessum málum. Ég gæti bætt heilsu mína verulega sem því miður er ekki á allra valdi og ég skyldi gera það því ég hefði tækifæri til þess að verða heilbrigð manneskja. Mér fannst líka ömurlegt að vera rétt rúmlega 30 ára og vera svona á mig komin! Nú ætti ég að vera einna best á mig komin á lífsleiðinni!

Ég fór á vigtina og það var ekki falleg tala sem kom þar fram. Ég þyrfti að losa mig við um 40kg. Það var skelfilegt að horfa á þessa tölu og mér fannst þetta óyfirstíganlegt. Ég var hins vegar komin með svo mikið ógeð á þessu og einnig fann ég að þetta var farið að hafa áhrif á fjölskylduna mína. Vanlíðan mín kom oft fram í pirringi og þungri lund. Ég gerði mér fulla grein fyrir því og fannst það sko alls ekki sanngjarnt gagnvart þeim.

Ég veðjaði sko aldeilis á réttan hest.
Ég vissi að ég myndi aldrei geta tekið á þessu vandamáli án aðstoðar. Ég hafði frétt af konum sem höfðu farið í Dansrækt JSB og náð góðum árangri þar og einnig hafði ég heyrt að þar væri mjög góð leikfimi. Ég ákvað að þetta væri eitthvað fyrir mig og horfði einungis á það sem lausn fyrir mig. Ég veðjaði sko aldeilis á réttan hest. Eftir fyrsta fundinn hjá Báru gekk ég mjög jákvæð út og ákveðin í því að nú væri tækifærið komið. Nú skyldi ég ná árangri og ég skyldi taka af mér öll aukakílóin og koma út úr þessu ánægð með mig. Ég setti mér það markmið að mæta í alla tíma og að ég skyldi alltaf léttast fyrir hvern tíma en maður er vigtaður í hverjum TT tíma. Það reyndist mér alls ekki erfitt að mæta í alla leikfimistímana því í fyrsta sinn þótt mér gaman að mæta í leikfimi. Einu sinni í viku fór ég í matvöruverslun og verslaði inn fyrir vikuna og fór þá eftir matarlistanum hennar Báru. Fjölskyldan borðaði oftast það sama og ég og kvartaði alls ekki enda er maturinn á listanum ósköp venjulegur og góður matur. Fyrstu 3-4 dagana sem ég fór eftir listanum fann ég fyrir smá höfuðverk og auðvitað svengd en Báru hafði svo vel tekist að innleiða mig inn í þennan nýja heima um mataræði að mig hreinlega langaði ekki að breyta út af minni stefnu. Ég ætlaði að nota þetta tækifæri og þessa hjálp sem ég fengi. Enda lét árangurinn ekki á sér standa. Kílóin byrjuðu að renna af mér og um leið efldist metnaðurinn í að standa mig og stuðningurin frá manninum mínum var ómetanlegur. Yfirleitt var hann búinn að matreiða handa mér gómsætt salat eða eitthvað annað hollt og gott þegar ég kom heim úr leikfimistíma. Þegar hann sá hversu alvara mér var með þetta og hversu vel mér gekk þá fékk ég frábæran og ómetanlegan stuðning.

Á níu mánuðum léttist ég um 32kg.
Mér finnst ég hafa endurheimt sjálfa mig og mér finnst bara svo gaman að vera til. Það er svo gaman að fara út í búð að finna föt, það er bara tilhlökkunarefni að dubba sig upp og fara á mannamót. Það er svo gaman að geta nú gengið á fjöll og hlaupið úti í fótbolta með börnunum. Mér finnst þetta vera nýtt líf og þó ég eigi nokkur kíló eftir þá er nú unnið í því í rólegheitunum að feykja þeim burt en þau trufla mig afar lítið þó ég vilji losna við þau. Ég hef verið óspör á að dekra við sjálfan mig, ekki í mat, heldur í því að bæta útlit mitt. Mér hefur bara fundist ég eiga það skilið að láta stjana við mig á snyrtistofum og hárgreiðslustofum og kaupa á mig þau föt sem mig langar í. Viðbrögð fólks og hvatningarorð hafa líka verið ómetanlegur stuðningur. Mér finnst þetta hafa verið það besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig.

Ég er líka svo glöð að hafa farið í Dansrækt JSB því þar er svo notalegt andrúmloft, þar eru margar konur að vinna að sama markmiði, leikfimin er frábært og fer einstaklega vel með líkamann. Kennararnir eru faglegir og leggja sig fram um að leiðbeina fólki með rétta líkamsbeitingu. Í fyrsta sinn fannst mér leikfimi skemmtileg, með góðri tónlist sem ekki er stillt í botn eða æfingarnar unnar á methraða. Ég hlakkaði til að fara á fundina en þeir voru nauðsynlegir ti að halda manni við efnið og fá áframhaldandi stuðning og ráð.

Einu sinni trúði ég því að það væri ekki hægt að losa sig við aukakílóin en ÞAÐ ER HÆGT og það er sannarlega þess virði.