Fastagestur í JSB

Langar að segja aðeins frá því hvernig ég hef upplifað það að vera fastagestur í JSB.

Þegar ég byrjaði í lok ágúst í JSB var ég búin að vera í ákveðinni meðferð með sjálfa mig í tæpan mánuð. Hafði loksins komið mér til þess að stíga á vigtina á 55 ára afmælinu mínu í sumar eftir nokkur ár af „höfðinu stungið í sandinn“. Þá sagði ég: Hingað og ekki lengra! Daginn eftir byrjaði ég prógramm. Ég fór á hverjum degi út í klukkutíma göngu. Ég tók að mestu í burtu gerbrauð, kartöflur, hrísgrjón og pasta, hætti nammiáti og breytti morgunmatnum (fór að fá mér búst með ávöxtum og smáslettu af skyri). Þegar ég byrjaði í JSB hafði ég losnað við ca 3 kíló.

Þá var komið að þætti ykkar :) Það er margt búið að gleðja mig hjá JSB

Fyrsta sem ég tók eftir og gladdi mig mjög var að geta sótt heilsurækt þar sem kúnnahópurinn var bara konur. :)

Það næsta sem ég tók eftir var að ólíkt upplifuninni í mörgum líkamsræktarstöðvum var engin „lína“ eða „tíska“ í gangi í íþróttafatnaði þannig að ég fengi þá tilfinningu að ég væri hallærisleg ef ég mætti bara í mínum bol og joggingbuxum. :)

Þá kem ég að námskeiðunum. Ég byrjaði á TT1 námskeiði, tímarnir voru skemmtilegir og það hentaði mér frábærlega að fá þetta aðhald og um leið stuðning. Þarna fuku 7,5 kg í viðbót og mismunur í cm á mælingu við upphaf og lok var: 10-6-9-5-4-4-6-4-4

Ég ákvað að koma til þín í námskeiðið Mótun eftir TT1 námskeiðið. Hafði trú á að það myndi nýtast mér vel og það var akkúrat það sem mig vantaði sem framhald. Frábært æfingakerfi og ég finn mun á styrk og liðleika eftir hverja viku. Til viðbótar hef ég haldið mig við sama mataræði og ég lærði á TT1 námskeiðinu en því til viðbótar hef ég haldið mig að mestu frá hröðu kolvetnunum og nánast alveg látið nammi í friði (tvær undantekningar á 6 vikum, þ.e.a.s. þegar ég fór í bíó). Ég hef losnað við 5 kg til viðbótar við það sem fór á TT námskeiðinu. :)

Má til með að segja svona í lokin frá búðarferðinni minni í gær. Þurfti að versla buxur af því að þær sem ég á tolla ekki upp um mig lengur. Konan í búðinni spurði: Hvaða stærð notarðu? Ég svaraði: Örugglega minnst 44. Mátaði 44, þær voru of stórar. Fékk 42 og mátaði. Þær voru líka of stórar. Ég fór út með buxur í stærðinni 40 og trúði því varla sjálf.

Mér líður frábærlega eftir þessar 12 vikur hjá ykkur og get ekki hugsað mér að hætta.

Þúsund þakkir fyrir mig

Anna