Frábærir tímar á Akranesi, 12.5 kg og 60 cm. á 16 vikum

TT námskeið var auglýst á Akranesi í lok sumars og ég hafði heyrt sögur af góðum árangri frá þeim sem höfðu verið um vorið svo ég ákvað að slá til. Hafði bætt á mig alltof mörgum kílóum í gegnum árin og var orðinn 25 kg of þung. Ég hef alltaf haft gaman af að þjálfa en hafði lítið gert í tvö ár. Hafði rifið liðþófa í hné og hafði farið í aðgerð á vinstra hné í jan 2011 og svo á hægra hné mars 2012. En nú var komið að því að taka á málum. Ég fór í Eirberg og keypti mér vandaðar hnéhlífar og svo mætti ég í fyrsta tímann. Og tilfinninginn sem fylgdi á eftir var frábær, ég gat gert æfingarnar, lét hlaup og hopp eiga sig en reyndi vel á mig í öllu öðru. Loksins byrjuð aftur og leið vel með sjálfa mig en svo var það vigtin, úps, en lét mig hafa það og þegar tölurnar fóru að fara niður á við þá hlakkaði mig til að stíga á vigtina.

Árangur námskeiðsins lét ekki á sér standa. Á 16 vikum missti ég 12.5 kg og 60 cm, fötin mín fóru úr því að vera of þröng í að verða of stór og allar hreyfingar urðu miklu léttari. Loks gat ég lagt hnéhlífarnar á hilluna og æft án þeirra. Steindóru þjálfara vil ég þakka sérstaklega, hún þjálfar okkur á skemmtilegan hátt, er fagleg, hvetjandi og með fjölbreytta tíma. Þá fylgist hún vel með okkur og passar að við gerum æfingarnar á réttan hátt. Fundirnir sem haldnir voru ómissandi þáttur námskeiðsins og hvatti mig áfram í að ná árangri, létta mig og finna sjálfa mig aftur.

„Hálfnað verk þá hafið er“ stendur einhvers staðar og nú held ég áfram og stefni á önnur 12.5 kg fyrir vorið og hlakka til að byrja aftur í janúar. Ásta Huld 31.12.2012.