Ingibjörg Pálmadóttir

Í nóvember í fyrra fór ég á TT-námskeið hjá Dansrækt JSB sem varð til þess að núna er ég 18 kg léttari og að öllu leyti hressari. Líkamlegt ástand mitt var ekki gott, ég var komin með gigtareinkenni, slæm í mjöðm og hnjám, auk þess sem ég var og þung. Með aldrinum vill brennslan hægjast hjá okkur og auðvelt að fara yfir kjörþyngd ef við gætum ekki að okkur. Það er öllu vandaminna að bæta kílóunum á sig en ná þeim af. Ég hafði prófað leikfimi á ýmsum stöðum og alls kyns matarkúra en entist aldrei í neinu.

Á TT-námskeiðinu var lögð áhersla á að við borðuðum úr öllum fæðuflokkunum. Við vorum hvattar til að borða vel af ávöxtum og grænmeti og drekka nóg af vatni. Ég er mjög sátt við þá stefnu sem Bára tekur varðandi mataræðið. Líkaminn má ekki við því að fara á mis við mikilvæga fæðuflokka, niðurstaðan verður þá m.a. sú að hann hægir á brennslunni. Það er einmitt ekki sú niðurstaða sem við erum að leita eftir! TT-námskeiðin veita konum leiðsögn frá "toppi til táar" og er það réttnefni, því að í líkamsræktinni var tekið vel á öllum líkamanum. Jafnframt fólst mikil sjálfsstyrking í þessu ferli og okkur innrætt að rækta bæði líkama og sál.

Ég léttist um kíló á viku á TT-námskeiðinu og er mjög ánægð með árangurinn. Núna er líkamlegt ástand mitt allt annað. Það stóð jafnvel til að það þyrfti að skipta um mjaðmarlið í mér en ég slepp við það og þakka það hreyfingunni. Ég er að öllu leyti hressari og hraustari og hef gert líkamsræktina að lífsstíl. Ég reyni að fara daglega í leikfimi, helst á morgnana og finn hve jákvæð áhrif það hefur á mig, jafnt andlega sem líkamlega. Ég kem meiru í verk og er hress allan daginn eftir að hafa tekið vel á og komið blóðinu á hreyfingu.

Ég er sannfærð um að hægt væri að draga úr útgjöldum til heilbrigðismála með virkri heilsueflingu þjóðarinnar. Reynsla mín hefur styrkt mig í þeirri trú að ríkið gæti beitt sér í þessum efnum t.d. með því að niðurgreiða líkamsræktarþjónustu, stuðla að því að læknar vísi fólki í líkamsrækt og fleira í þeim dúr. Það gæti dregið úr einkennum og leitt til bata fjölmargra einstaklinga. Við skulum líka hafa í huga að þeir sem stunda heilsurækt spara ríkinu og mætti því jafnvel leita leiða til að umbuna þessum einstaklingum. Hvað sem öðru líður, þá eignumst við aðeins einn líkama og því vænlegast að hugsa vel um hann.