Langhlaup í kjölfar áramótaheits

Þegar ég var 26 ára (fyrir 14 árum) og nýbúin að eignast seinni dóttur mína hafði ég þyngst töluvert en fór þá í fyrsta sinn á TT námskeið með mjög góðum árangri. Á einu ári náði ég næstum hæstu tölu. En þá hætti ég að hreyfa mig og smám saman með árunum bætti ég á mig og varð enn þyngri en áður. Þetta gerðist hægt og bítandi, mér leið ekki vel, forðaðist hreyfingu og náði að verða næstum 40 kg. of þung í kringum aldamótin. Árið 2005 flyt ég til Svíþjóðar til að klára háskólanám og var þá nýlega fráskilin. Ég kem aftur heim til Íslands í febrúarmánuði 2007, fyrir fjórum árum og var þá 106 kg. Ég hafði tekið stóra ákvörðun um áramótin þar á undan. Ég legg ekki í vana minn að strengja áramótaheit en ég fékk gífurlega sterka löngun og þörf til að hefja nýtt líf, öðruvísi og betra líf en ég hafði átt hingað til. Ég sagði sjálfri mér að nú yrði breyting á, þessari þyngdaraukningu skyldi ljúka og nú myndi þróunin snúast við. Nú myndi ég byrja að léttast. Alveg sama hversu langan tíma það tæki. Ég gaf mér 4-5 ár. Langtímamarkmið því annað hafði bara ekki virkað hjá mér lengi.

Í febrúar 2007 byrjaði ég á að prófa aðra líkamsræktarstöð en JSB en fann mig ekki þar og varð hugsað til þess góða árangurs sem ég náði hjá Báru 10 árum áður og skráði mig á TT námskeið í marsmánuði þá 37 ára og 104 kg. Á þessu ári fór ég á tvö 9 vikna námskeið og léttist um ca 7 kg. Þegar ég var ekki á námskeiði var ég að hreyfa mig á annan hátt. Ég sagði við sjálfa mig að héðan í frá yrði hreyfing hluti af mínu daglegu lífi, það væri eitthvað sem væri komið til að vera. Þannig hef ég getað haldið í árangurinn frá TT námskeiðunum í stað þess að bæta á mig þegar ég var í hléum milli námskeiða. Þarna um sumarið 2007 byrjaði ég að ganga úti í náttúrunni. Fann mér gönguleiðir hér og þar. Ég meira að segja fór aðeins upp í hlíðar á Esjunni í fyrsta skipti á ævinni. Þetta var hunderfitt fyrir mig! Ég hef nefnilega allt mitt líf verið þannig að ég fæ sáran höfuðverk við að hreyfa mig en ég hef greinst með streituhöfuðverk sem m.a. kemur svona fram. Mér verður ofboðslega heitt og fæ hjartsláttarverk í höfuðið. Hver leikfimistími var pína og ég ýmist fór í vinnuna eða heim eftir tíma þar sem ég þurfti að taka verkjalyf og hafa hægt um mig. Ég var líka snillingur að tala neikvætt til mín. Ég vorkenndi mér, fannst ég léleg í leikfimissalnum, líta illa út, ganga hægt að léttast osfrv osfrv. En ég hef þróað með mér tækni til að fást við neikvæðu hugsanirnar því þær poppa stundum enn upp. Eftir að „vælukjóinn“ í mér hefur ælt upp úr sér allt hið neikvæða og vorkennt sér ofboðslega tekur „harðstjórinn“ við og telur upp ástæðurnar fyrir því af hverju ég eigi að mæta í ræktina og hver afraksturinn verður. Minnir mig á að ég er að leggja inn fyrir góða heilsu í ellinni og betra lífi þangað til. Ég skuli, geti og vilji halda áfram á þessari braut! Þetta örugglega hljómar eins og ég sé létt klikkuð en þetta virkar fyrir mig ;) Ég segi oft að ég fari þetta ferðalag á andlegu ofbeldi. J

Á árinu 2008 fór ég á þriðja TT námskeiðið en ekki fyrr en í ágúst. Þá um sumarið hafði ég haldið áfram göngum og fór m.a. lengra upp í Esju nokkrum sinnum og léttist um 2kg um sumarið á því sprikli. Á TT námskeiðinu léttist ég svo um 6 kg. í viðbót. Þá voru samtals ca 16 kg. farin og ég 90 kg. Á árinu 2009 stundaði ég létta líkamsrækt í þreksölum og gekk heilmikið en fór ekkert á TT námskeið það árið. Ég hef alltaf getað haldið þeim árangri sem ég náði á námskeiðunum með því að finna mér eitthvað skemmtilegt að sprikla í og í marsmánuði lét ég svo draum rætast sem innihélt áskorun og hreyfingu; ég byrjaði að læra að dansa salsa. Mikil skemmtun og mikil hreyfing. Um sumarið jók ég enn á útivistina og var mjög aktív. Var nú farin að kíkja á fleiri fjöll en vinkonu mína Esjuna og allt á andlegu ofbeldinu með vælukjóann og harðstjórann í farteskinu en það verður alltaf lengra í höfuðverkinn eftir því sem þrekið eykst og verðlaunin, að standa á toppinum, eru þess virði. Afrek mín þetta árið var m.a. að toppa Heiðarhornið, hæsta tind Vesturlands 1053m hátt, með ísexi og mannbrodda. Gekk einnig margra tíma göngu í öllum veðrum frá Hveragerði að Hellisheiðarvirkjun og um sumarið gekk ég Laugaveginn á fjórum dögum með þungan bakpoka og þess á milli dansaði og dansaði ég salsa. Í árslok 2009 er ég ca 83 kg., 23 kg. farin mér leið betur en nokkurntímann áður og fannst ég algjör töffari eftir fjallgöngurnar allar og líkaði það vel!

Í ársbyrjun 2010 verður konan ástfangin og eignast alveg svaðalega sætan kærasta og sér ekkert fyrir regnbogum og bleikum skýjum. Á næstu 8 mánuðum þyngist hún í fyrsta sinn á þrem árum! Ég kalla þetta „the love kílós“ en þau urðu nú bara þrjú! Í maí þetta ár gekk ég á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnúk. Var það fertugsafmælisgjöfin mín frá mér. Hefði ég trúað því fyrir 4 árum að ég myndi afreka slíkt? Svar; ó nei! Í október 2010 var kominn tími á fjórða TT námskeiðið og skila fleiri kíló eftir í JSB. Á sex vikna námskeiði hrundu 5,7 kg. af mér í viðbót og ég er um áramótin 2010/2011 79,5 kg. og þá hafði ég skilið ca 25 kg. eftir hjá Báru. Í janúar 2011 skellti ég mér á fimmta TT námskeiðið og missti um 4 kg. og hef nú í febrúar 2011, þegar þetta er skrifað, náð að missa 30 kg. frá því í febrúar 2007. Þrjátíu kíló á fjórum árum og ég lít út fyrir að vera 10 árum yngri! Ég er 76 kg. – Bára segir að hæsta talan mín sér 68 kg. svo ég á 8 kg. eftir í það. Nú er fólk í kringum mig farið að vara mig við að léttast ekki of mikið! Það heldur örugglega að ég geri þetta svo auðveldlega að ég fari óvart of langt – en ég hef svo sannarlega þurft að vinna fyrir hverju kílói sem farið hefur.

Á þessum fjórum árum hefur margt breyst. Mataræðið hefur smám saman breyst, ég borða meira af heilsusamlegum mat en áður og passa mun betur upp á skammtastærðir en það er gífurlega mikilvægt atriði. Ég elska góðan mat og neiti mér ekki um hann, bara hef hreyfinguna í takt við matarinntökuna. Það má segja að ef ég borða of mikið þá þarf ég að „borga fyrir það“ með aukinni hreyfingu þá vikuna ..eða það segir harðstjórinn og hann hefur svo rétt fyrir sér alltaf.

Það er ofboðslega gott að sjá ætlunarverk sitt verða að veruleika. Ég gaf mér 4-5 ár og er að standa við það. Ég vildi öðruvísi og betra líf og hef svo sannarlega fengið það uppfyllt. Ég hef tileinkað mér heilmikið frá boðskap Báru. Hennar boðskapur er svo einfaldur og auðveldur að skilja, léttur og skemmtilegur. JSB er staðurinn til að fá stuðning og aðhald fyrir þær konur sem þurfa og vilja léttast, þær hafa reynsluna, viljann og rétta viðmótið.