Póstur 4
Náðirðu TT markmiðum þínum fyrir síðustu viku?
Ef þú ert í 4. Vikunni þinni þá eru það 900gr frá fyrstu vigt. Margar ykkar eru i níundu vikunni og þá ætti staðan að vera 2.4kg farin, og það er svo sannarlega staðan hjá mörgum og meira en það,sumar með tvöfalt og þrefalt TT markmið,Glæsilegt það!
Stjörnuljós vikunnar:
Frá 01/03.
- Thelma Rut 4,7 kg
- Unnur Guðmunds. 4.2kg
- Kristín Halla 3.3kg
- Stefanía Þórarinsd. 3.1kg
- Aðalheiður Mattíasd. 3.0kg
Frá 18/01
- María Ósk 8.7kg
- Eva Ægisd. 5.7kg
- Anna Lovisa 5.0kg
- Hafdís Dögg 5.0kg
- Birna Eggertsd 4.8kg.
Þvílíkur árangur. Til hamingju!
Ertu búin að skoða bókhaldið ?
- Þú þarft að hafa 18 mætingar skráðar í lok námskeiðs til að vinna þér inn 5% afslátt.
- Þú þarft að vera búin að missa 300 gr fyrir hverja viku frá fyrstu vigt: 1,8 kg – eitt námskeið.
- 3,6 kg – tvö námskeið o.s.frv., til að vinna þér inn 5% afslátt, eða 10% fyrir tvöfalt markmið.
Svör við spurningum síðustu viku:
- Maður bætir á sig 5 kg á ári með því að neyta 100 he meira en maður þarf í 365 daga samfleytt.
- Allt sem þú neytir fram yfir orkuþörf er fitandi.
- Í heilli gúrku eru 30 – 50 he.
Hvernig gengur að læra hitaeiningatöfluna?
- Það eru 150 – 180 hitaeiningar í einu rúnnstykki.
- Það eru 112 – 120 hitaeiningar í einu rauðvínsglasi (1,5 dl).
- Það eru 225 hitaeiningar í hálfum lítra af bjór.
- Það eru u.þ.b. 30 hitaeiningar í heilli agúrku.
- Það eru u.þ.b. 50 hitaeiningar í öllum ávöxtum nema banana (u.þ.b. 100 he).
- Það eru 120 hitaeiningar í einu glasi af nýmjólk.
- Það eru 90 hitaeiningar í einu glasi af undanrennu.
- Það eru 90 hitaeiningar í einu glasi af kók.
Ef sykurlöngunin er alveg að fara með þig, fáðu þér þá banana, það virkar, trúðu mér!
Þú þarft að vera undir 14 þúsund hitaeiningum samtals eftir 7 daga til að léttast. Undir 2000he á dag |
Það er ekki „eðlilegt“ að léttast í hverri viku.
Mundu að það er bara núna, meðan á þessu verkefni stendur, sem þú hefur sett þér þetta markmið. Það er mjög áríðandi að halda athyglinni á því sem þú ert að gera og ekki fara að bera þennan tíma saman við „venjulegt“ líf. Ekki detta í fórnarlambshlutverkið og fara að vorkenna þér að mega ekki hitt og þetta eins og aðrir. Það er nefnilega mjög auðvelt að falla í þann pytt, svo gættu að þér! Þú átt ekki bágt. Þú ert að gera nákvæmlega það sem þú vilt og ert að ná góðum árangri í því, svo njóttu þess og hafðu gaman af þessum tíma. Rífðu upp keppnisskapið og gefðu þig alla í þetta á meðan á þessu stendur. Þá tekur þetta ekki svo langan tíma og þú getur aftur gert allt sem hugurinn girnist. Það verður þó alltaf undir þinni vökulu stjórn, því að nú verður þú framvegis meðvitaðri um hvernig þetta virkar og notar að sjálfsögðu 7 daga regluna sem hluta af þínum lífsstíl.
Ekki láta vigtina hræða þig
Ekki láta vigtina slá þig út af laginu þegar hún fer upp án þess að þér finnist það vera þín sök. Vigtin getur farið upp einfaldlega af því að líkaminn heldur í vökva og það getur stafað af einhverju í matnum, t.d bragðefninu mónósódíum glútómati (E 621) sem oft er að finna í pakka- og dósasúpum og sósum og öðrum tilbúnum mat. Það getur líka stafað af of miklu salti eins og í saltkjöti og öðrum söltuðum og reyktum matvælum. Það er einnig algengt að þyngjast rétt fyrir blæðingar. Ráðið við því er að drekka meira vatn, eða borða vel af vatnsmelónu í einn til tvo daga. Sítrónan og greipávöxturinn eru líka vatnslosandi
Það er ekki galli að fitna heldur hæfileiki
Einn af mörgum frábæru hæfileikunum sem líkami okkar býr yfir er að geta fitnað, eða geymt orku. Á meðan við erum hraust og heilbrigð þá mun hann geyma umframorku ef við tökum til okkar meiri næringu en við höfum þörf fyrir. Um leið og við skiljum þetta er björninn unninn. Ástæða þess aða við fitnum er ekki sú að eitthvað hafi farið úrskeiðis í líkamanum, heldur að hann bregst við eins og honum er áskapað þegar við borðum meira en við þurfum. Við fitnum þegar við sofnum á verðinum og „leyfum“ þessari orkusöfnun að eiga sér stað of lengi og ætlum að „taka á þessu seinna“. Mundu að það tekur aðeins 7 daga að fitna!
Sjö daga reglan.
Vonandi er það farið að skýrast núna að 7 daga reglan hefur stjórn á þessum málum. Það tekur okkur 7 daga að fitna ef við viljum og líka 7 daga að léttast ef við viljum. Þannig er hægt að stjórna öllum stórhátíðum lífsins og sumarfríum! Taktu léttan dag eftir þungan og jafnvel þótt vegleg veisluhöld séu samfellt í 3 daga þá er hægt að grípa inn í hina 4 dagana með því að takmarka hitaeiningainntökuna og sleppa þannig með skrekkinn!
Þarf ég að vera í megrun alla ævi?
Nei, en þú verður að vilja halda þér frá því að fitna alla ævi! Ef þú stendur frammi fyrir því verkefni núna að losa þig við 20 – 30 kg, þá þarf skipulag og úthald til og þess vegna ertu í TT núna. Trúðu á getu þína til að klára verkefnið og taktu þátt af fullum krafti. Það er svo miklu skemmtilegra að gefa sig alla í þetta. Ekki láta neitt slá þig út af laginu og þá muntu ná í mark! Þú ert nú þegar farin að uppskera og finnur áreiðanlega mun á þér, bæði líkamlega og andlega. Taktu eftir því hvað fötin þín eru farin að passa betur og hversu léttara er að hreyfa sig – og skemmtilegra! Líkami þinn elskar þessa áreynslu sem hann er að fá og fyrir utan kílóin sem eru að hverfa þá eru línurnar mun betri. Þú ert smám saman að verða líkari sjálfri þér. Já, það er rétt. Líkari sjálfri þér! Þú ert að fá sjálfa þig til baka! Þú varst nefnilega að breyta þér með því að bæta á þig um 20 – 30 kg. Sú breyting var hins vegar hvorki til batnaðar fyrir útlitið né heilsuna. Það er ástæðan fyrir því að þú hættir við að vera 20 – 30 kg of þung og ert búin að ákveða að vera bara eins og þú ert að upplagi. Frábært, áfram þú!
Gömlu kílóin koma ekki aftur.
Kílóin sem eru farin geta aldrei tryggt þér að þú fitnir ekki aftur. Þetta er mjög áríðandi staðreynd. Oft heyrir maður setningar á borð við þessa: „Hún (eða hann) léttist rosalega, en svo komu öll kílóin aftur og meira til!“ Þessu er til að svara að kíló sem eru farin koma aldrei aftur. Það geta aftur á móti komið önnur og glæný kíló í staðinn og því skyldi það ekki gerast, ef viðkomandi fer aftur í sama farið með því að taka upp sömu siði, hegðun og grandvaraleysi og áður? Lærði sem sagt ekkert, grennti sig bara með því að borða minna, en uppskar engan skilning á því hvernig líkaminn starfar og dregur því rangar ályktanir af því hvers vegna allt fer í sama horf. Þessi viðkomandi hefur greinilega skautað yfir 7 daga regluna af fullkomnu skilingsleysi, eða bara aldrei tileinkað sér hana.
Spurningar vikunnar:
1. Hvað þartfu að vera búin að léttast mikið til að ná tvöföldu TT markmiði?
2. Af hverju er hafragrautur hollur?
3. Hvað eru margar hitaeiningar í hálfri melónu?
4. Hvað er eftirsóknarvert í bláberjum?
5. Hver er meðalorkuþörf kvenna hér á landi?
6. Undir hvað orkumörkum þarf að vera til að léttast á 7 dögum?
Höldum áfram að fara varlega, við erum öll almannavarnir!
Eins og þið vitið má nota sturturnar, gufuna og klefana núna og þvílík hamingja sem er búin að ríkja með það! Verið á varðbergi og vinsamlega mætið ekki ef þið eruð með kvef. Gætið þess að þvo ykkur um hendur fyrir og eftir tíma og takið með handklæði til að setja á dýnuna.
Við getum þetta og gerum það saman!
Ykkar Bára.