Hafðu samband

Heimilisfang: Lágmúli 9, 105 Reykjavík Sími: 581-3730 Netfang: jsb@jsb.is

+354-581-3730

jsb@jsb.is

Sé mig ekki lengur sem feitu stelpuna…

Sé mig ekki lengur sem feitu stelpuna sem stundar engar íþróttir.

Líkamsrækt JSB í Lágmúla er staður fyrir stelpur og konur á öllum aldri. Þar er afar fjölbreytt úrval af tímum í opna kerfinu þar sem allar geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Auk þess er hægt að velja úr fjölda spennandi námskeiða og þar slá TT-námskeiðin svokölluðu – Frá toppi til táar – öll vinningsmet.

Þessi námskeið byggjast á því að hjálpa konum og stelpum að “taka til í holdafarinu” eins og það er orðað. Þarna er ekki verið að fara í skyndimegrun eða ofurátak, heldur einfaldlega verið að leiðbeina um breyttan lífsstíl og hegðun til framtíðar. Árangurinn á þessum námskeiðum hefur verið gríðarlega mikill og mælst í tonnavís, enda hefur mikill fjöldi kvenna náð góðum tökum á mataræðinu og tileinkað sér heilbrigt líferni. Kristrún Oddsdóttir er ein þeirra sem hefur náð frábærum árangri á TTnámskeiðunum hjá Líkamsrækt JSB. Hún byrjaði haustið 2012 og hefur núna losað sig við rúm 36 kg. Við báðum Kristrúnu um að segja okkur frá þessum glæsilega árangri sínum og lögðum fyrir hana nokkrar spurningar.

HVAÐ VARÐ TIL ÞESS AÐ ÞÚ ÁKVAÐST AÐ BREYTA UM LÍFSSTÍL?

Sumarið 2010 gekk ég upp Esjuna með vinkonu minni. Ég var í ömurlegu formi en lét mig þó hafa það að ganga upp að Steini þrátt fyrir að hafa enga getu í verkefnið og að líkamlegt form væri mjög lélegt. Þrjóskan bar mig upp Esjuna. Í þessari göngu ræddi ég það við vinkonu mína að mig langaði til þess að vera komin í kjörþyngd og vera í mínu allra besta formi þegar ég yrði þrítug. Næstu tvö árin vann ég lítið sem ekkert í þessu markmiði. Rúmum tveimur árum seinna, haustið 2012, fékk ég nóg af sjálfri mér og sagði að þetta gengi ekki lengur. Ég var aftur staðráðin í að ná því markmiði að komast í mitt allra besta form fyrir þrítugt. Verkefnið var stórt og því kominn tími til að byrja ef það ætti að nást.

AF HVERJU JSB?

Í upphafi benti frænka mín mér á JSB og hvatti mig til að prófa. Ég var búin að reyna ýmislegt en hafði aldrei fundið það sem hentaði mér. Fljótlega eftir að ég byrjaði í JSB áttaði ég mig á að þarna væri ég komin á stað sem uppfyllti mínar þarfir; stað þar sem allar konur eru samþykktar hvort sem þær eru litlar eða stórar, léttar eða þungar. ÁTTIR ÞÚ VON Á AÐ NÁ ÞESSUM ÁRANGRI? Auðvitað átti ég von á árangri, annars hefði ég aldrei farið af stað í þetta nánast óyfirstíganlega verkefni á sínum tíma. En árangurinn er kannski meiri en ég bjóst við þegar ég byrjaði. Ég vissi í upphafi að ég þyrfti að fara á lokað námskeið til að halda mér við efnið. Lokuðu TT námskeiðin í JSB eru flott leið fyrir þær konur sem þurfa stuðning til að halda sér við efnið. Mætingin er skráð og ekki vill maður fá x í kladdann! Einnig eru fundir með Báru einu sinni í viku þar sem hún fer yfir stöðu mála, fræðir okkur og peppar upp. Eins og það er erfitt að mæta á fundi þegar illa gengur þá er jafn gaman að mæta þegar gengur vel. Ég man þegar ég var að byrja á námskeiðinu þá var ein með mér á fundum sem hafði náð frábærum árangri og ég hugsaði í fyrstu að ég yrði aldrei í þessum sporum. Ári síðar er ég komin á sama stað og þessi kona og veit núna að ég er fyrirmynd fyrir hinar konurnar sem eru með mér á námskeiðinu. Það að heyra að einhver sé búin að missa nokkra tugi kílóa gefur þeim sem eru við það að gefast upp á strögglinu von um að allt sé hægt.

VARSTU ALDREI VIÐ ÞAÐ AÐ GEFAST UPP?

Jú, oft og mörgum sinnum, sérstaklega fyrstu mánuðina þegar mér fannst ekkert ganga og tímarnir erfiðir. Núna í dag er sú hugsun nánast horfin og ég veit að ég get allt. Auðvitað koma einstaka sinnum dagar þar sem allt er ómögulegt. Núna veit ég að ekkert lagar slíka daga betur en góður tími í ræktinni.

VAR ERFIÐIÐ ÞESS VIRÐI?

Já, algjörlega. Ég er svo þakklát í dag fyrir að hafa ekki gefist upp þó að ég hafi átt mínar erfiðu stundir. Erfiðið eru búið að skila sér margfalt til baka í betri líðan.

HVERJU HEFUR ÞETTA BREYTT FYRIR ÞIG?

Það er eiginlega hægt að segja að þessi breyting á lífsstíl hafi breytt öllu fyrir mig. Ég er miklu lífsglaðari og tilbúnari til að takast á við þær áskoranir sem verða á vegi mínum í dag. Ég er léttari á mér, get nánast keypt mér hvaða föt sem er. Núna veit ég líka að ég get gert allt sem ég vil í lífinu. Það eru engar hindranir, heldur fullt af áskorunum. Ég sé mig ekki lengur sem feitu stelpuna sem stundar engar íþróttir eins og ég hef gert frá því að ég var á unglingsaldri, enda hef ég verið of þung frá því að ég man eftir mér. Núna veit ég að við erum ekki fædd og dæmd í eitthvert hlutverk. Ef viljinn er fyrir hendi getum við alveg breytt því sem þarf að breyta. Ég er líka ánægð með að hreyfing, hvort sem hún er innandyra eða utan, er orðin partur af lífi mínu. Núna mæti ég 5-6 sinnum í viku í ræktina. Í sumar var ég líka farin að stunda aðeins fjallgöngur sem ég stefni á að gera meira af í framtíðinni.

HVERNIG SÉRÐU FRAMTÍÐINA FYRIR ÞÉR – ÁTTU VON Á AÐ HALDA ÞESSUM ÁRANGRI?

Já, ég á von á að halda þessum árangri. Ég á ennþá um 15 kg eftir til að ná þeirri þyngd sem ég tel mig vilja vera í og næsta markmið er að ná þeim kílóum af mér. Ég sé það í dag að ég mun ná markmiðinu að komast í mitt allra besta form fyrir þrítugsafmælið í nóvember. Ég er nokkuð viss um að ég þurfi að vera meðvituð um mataræði og hreyfingu alla mína ævi. Ég er samt búin að breyta lífsstílnum það mikið á þessu rúma ári að ég tel ansi hæpið að ég fari í gamla farið aftur.

Núna veit ég líka að ef ég misstíg mig á þessari braut þá er ekkert annað í stöðunni en að standa upp aftur og halda áfram.