Hafðu samband

Heimilisfang: Lágmúli 9, 105 Reykjavík Sími: 581-3730 Netfang: jsb@jsb.is

+354-581-3730

jsb@jsb.is

Sjö daga reglan.

Það er svo stutt bilið á milli þess að standa í stað og að léttast, eins og þú sérð á tölunum hér að neðan:
• Ef þú ert undir 14 þúsund he 7 daga í röð, þá eru mestar líkur á að þú léttist.
• Ef þú ferð í 16 þúsund he, þá eru mestar líkur á að þú standir í stað.
• Ef þú ferð í 17-20 þúsund he, þá eru mestar líkur á að þú þyngist.
7 daga reglan:
Samanlagt hitaeiningamagn 7 daga í röð, ekki það sem þú gerir einn og einn dag, heldur 7 daga í röð. Sem sagt, taktu léttan dag eftir þungan, ekki geyma og ætla að taka á því seinna, heldur alltaf skila til baka innan 7 daga, áður en líkaminn býr til nýtt aukakíló. Þannig kemst maður í gegnum allar veislur lífsins án þess að bera þær utan á sér um ókomna tíð!

Fitandi/megrandi.
Þessi hugtök eru ónothæf í þessu verkefni, því að allt getur verið fitandi ef borðað er nógu mikið af því. Hugtakið megrandi er rangt, því að það er ekkert til sem maður grennist af að borða. Til þess að losna við fituforða þarf að nota hann! Það gerum við með því að velja mat sem er ríkur af vítamínum og steinefnum, en hefur sem lægstar orkueiningar, eins og grænmeti, fisk, magurt kjöt, léttar mjólkurvörur og ávexti og fækka hitaeiningum undir þörf, svo að líkaminn „verði“ að taka af eigin forða til að fá nóg.

Hvernig er rétt matarræði?
Í stuttu máli er æskilegt að fjölbreyttrar fæðu sé neytt úr öllum fæðuflokkum og jafnframt að hófsemi sé gætt í neyslu. Hæfilegt er að kolvetni veiti u.þ.b. 55% heildarorku, prótín 15-20%, fita 25-30% og að fæðan innihaldi auk þess steinefni, vítamín og vatn.

Kolvetnin eru varasöm því að þar er sykurinn, sætabrauðið, gosið og allt nammið. Þar eru líka ávextirnir, kartöflurnar, hrísgrjónin, brauðið, haframjölið og baunirnar. Prótínið fáum við svo úr kjötinu, fisknum, eggjunum og mjólkurvörunum. Fituna fáum við bæði úr dýraríkinu og jurtaríkinu. Öll fita hefur 700-900 he í 100 gr og skal því notuð í hófi. Fitan flokkast í mettaða (harða) fitu sem er oftast úr dýraríkinu (kókosfita er þó hörð fita úr jurtaríkinu og óhagstæðari æðakerfinu) og fjölómettaða fitu úr jurtaríkinu (hagstæðari æðakerfinu) svo sem avókadó, ólífuolíu, repjuolíu, ólífur, fræ, hnetur og möndlur.

TT aðferðin gagnast þér alla ævi.
Með jöfnu millibili koma nýjar aðferðir sem sækja allar að því sameiginlega marki að losna við uppsafnaða fitu af líkamanum. Víst er að margt hefur verið reynt í leitinni að einu, sönnu fljótvirku og bestu leiðinni til að grennast. Nokkrar þeirra snúast um að sniðganga alveg suma fæðuflokka, samanber Keto-kúrinn sem byggist á því að neyta ekki kolvetna, þ.e. sleppa heilkorni, ávöxtum og nær öllu grænmeti. Mataræðið samanstendur því nánast eingöngu af prótíni og fitu. Varla getur það talist gott fyrir hjartað og æðakerfið. Ætla mætti að ekki sé bara verið að segja aukakílóunum stríð á hendur, heldur einnig heilsunni!

Einnig hafa komið fram aðferðir þar sem ráðlagt er að fasta tvo daga vikunnar. Aðrar byggjast á að borða 6 sinnum á dag og enn aðrar sem ráðleggja að skipta sólahringnum í 16 tíma föstu og átta tíma sem má borða. Einu gildir þó hvaða aðferð er notuð – það er alltaf orkuinntaka á móti orkuþörf sem gefur endanlegu niðurstöðuna. Það er sama hvað aðferð þú velur, ef þú neytir fleiri hitaeininga en þú kemst yfir að nota, þá muntu bæta á þig fituforða. Burtséð frá aðferðinni sem þú beitir, þá muntu ekki missa fituforða nema þú þurfir á honum að halda – þ.e. að þú notir hann. Það gerirðu með því að neyta færri hitaeininga en þörfin kallar á til þess að líkaminn „verði“ að ganga á forðann. TT aðferðin er góð og getur gagnast þér alla ævi, hvort sem þú ert í átaki eða ekki.