Hafðu samband

Heimilisfang: Lágmúli 9, 105 Reykjavík Sími: 581-3730 Netfang: jsb@jsb.is

+354-581-3730

jsb@jsb.is

Það þarf enginn að vera í yfirþyngd.

Bára var send í ballett sem barn og smitaðist snemma af dansbakteríunni. Á unglingsárum flutti hún til Englands þar sem hún lærði nútímadans við einn stærsta dansleikhússkóla þeirra Breta, Arts Educational Shools, en við skólann hafa margir þekktir dansarar lært í gegnum tíðina. Þegar hún sneri heim aftur eftir nám fór hún fljótlega að kenna sjálf. Í fyrstu ballett en svo ákvað hún að halda námskeið í djassballett. Þá varð ekki aftur snúið.

Aftur að upprunanum

„Ég leigði fyrsta salinn niðri á Hverfisgötu og fékk mjög fljótlega útlenda kennara til liðs við mig, enda mjög stórhuga í denn,“ segir Bára glottandi og heldur áfram. „Mér lá mikið á að innleiða dansmenninguna og ég fann að unga fólkið í Reykjavík þurfti eitthvað nýtt. Það tók þessu nýja tjáningarformi afskaplega vel. Á fyrstu árunum komu mörg hundruð nemendur á námskeið til mín,“rifjar hún upp. Báru fannst nauðsynlegt að finna góðan stað undir reksturinn, þar sem listamannaandinn fengi að njóta sín. „Á þessum tíma voru dansnámskeið oft haldin í íþróttasölum en þar kemur sköpunargáfan til að deyja, það er ekki rétt umhverfi. Ég tók góðan sal á leigu en krakkarnir í dansinum komu auðvitað bara eftir skóla á námskeið en ég hafði séð dansara úti í London vinna fyrir sér með því að bjóða fólki að gera æfingar sem við þekktum úr djassballettinum, þannig að ég ákvað að taka það upp. Þannig gat ég nýtt það að taka heilsárssal á leigu. Svoleiðis byrjaði líkamsræktin hjá mér, hún er unnin upp úr æfingakerfi dansarans. Nú hefur líkamsræktin þróast hjá okkur og er orðin sjálfstæð en ég held að dansarahugarfarið sé alltaf undirliggjandi hjá okkur,“ segir Bára sem hefur bersýnilega enn mikla ástríðu fyrir því sem hún er að gera og tjáir sig mikið með öllum líkamanum, eins og dansara sæmir.„Okkur finnst til dæmis ekkert voðalega sniðugt að æfa þangað til það kemur blóðbragð í munninn. Við kunnum að þjálfa. Það á ekki að gera þetta með offorsi en í ræktinni virðist það stundum vera „hipp og kúl“ að æfa með látum, ekki að það sé nauðsynlegt. Hér reynum við að vera á þessari fínu línu og að hafa gaman af þessu, það er minn tónn á þessu hausti: „Ræktaðu sjálfa þig og lifðu góðu lífi.“ Mér finnst líkamsræktin vera búin að keyra sig út í horn á mörgum stöðum með ofþjálfun. Við þurfum að spyrja sjálfar okkur til hvers við förum í ræktina? Nú til þess að geta lifað betra lífi. Því nú vinna flest okkar kyrrsetuvinnu. Lífið er aðalatriðið og með því að hreyfa okkur erum við betur í stakk búin til þess að lifa því vel. Það er sorglegt að útlitsdýrkun og steranotkun þurfi að fylgja þessum geira sem á að vera svo hollur og góður en ég held við þurfum að fara aðeins til baka í einfaldleikann. Fólk kemur stundum hingað alveg ringlað á öllu úrvalinu sem er í boði og veit ekki hvernig það á að snúa sér, það er svo margt í boði. Svo virðist sem það þurfi alltaf að vera að toppa sig, en það þarf ekkert endilega. Ef ég mætti ráða kæmu allir til mín í lokaða tíma. Þá kynnist hópurinn innbyrðist og ég byggi hann vel upp. Veit hvað var gert í síðustu viku og í lok vetrar sé ég framför. Þannig byrjaði líka líkamsræktin, fólk skráði sig í hópa. Svo kom opna kerfið sem er eðlileg þróun en þar með urðu allir einir, með alltof mikið val. Þá komu einkaþjálfararnir því fólk var orðið leitt á því að æfa eitt í salnum. Ég held að við séum að verða komin hringinn. Það er gott að fá félagsskapinn. Opna kerfið hefur þó sína kosti og þar stendur mikið til boða. Opnir tímar eru eins og hlaðborð en í lokuðu tímunum er þér þjónað. Ég held að margir kunni að meta það núna og vilji frekar láta hugsa um sig.“

Það þarf enginn að vera í yfirvigt.

Talið berst að fólki sem glímir við aukakílóin og raunveruleikaþáttum á borð við Biggest Loser. „Ég er voða hrædd við þessa þróun, megrun er ekkert gamanmál og það á ekki að hafa þetta í flimtingum. Þá er líka svo mikil hætta, þegar fólk fer að skiptast á skoðunum, á ofdýrkun á útliti og umræðan fari út í öfgar og skaði málstaðinn. En hitt er þó góð þróun að fólk er tilbúið að opinbera árangur sinn og er stolt af honum. Það er engin feimni eða skömm lengur, sem er gott. Ég er samt ekki viss um að sjónvarpsþættir eins og Biggest Loser séu sniðugir og það eigi að gera sjónvarpsefni um þetta. Aðalatriðið er að það þarf enginn að vera í yfirvigt sem ekki vill það. Punktur. Þú fitnar ekki á því sem föðurbróðir þinn borðar, saman ber þegar fólk talar um að holdafar sé í ættinni. Þú fitnar ekki á neinu nema því sem fer upp í þinn munn, sem betur fer. Auðvitað er alltaf erfitt, sérstaklega þegar kílóin eru orðin þrjátíu eða fleiri, að snúa blaðinu við og það virðist óyfirstíganlegt. En það er mjög algengt að unga fólkið í dag sé 15-20 kílóum of þungt. Það er mikilvægt að við snúum þessari þróun við.“ Bára segir mikilvægt að við endurmetum það hvernig við lítum á hreyfingu og hollustu. „Við þurfum að stíga til baka, við erum komin of langt frá uppruna matvæla með öllum þessum tilbúna mat sem stendur til boða. Við skulum ekki fagna því að hingað sé fluttur inn sífellt meiri gervimatur. Sósur með engri næringu. Engum hitaeiningum en engri næringu heldur. Uppfullar af gerviefnum, matvæli sem búin eru til á rannsóknarstofu. Ætlum við að bjóða börnunum okkar upp á það? Við viljum gjarnan fara heilbrigðu leiðina og ekki verða háð dufti eða gervimat. Við þurfum á hreinum mat að halda og sem minnst úr pökkum. En við getum líka fitnað á því að borða hollt og gott ef við borðum of mikið af því. Sumir drekka svo mikið af prótíndrykkjum að þeir fitna, þeir ná ekki að brenna því öllu, ekki einu sinni í ræktinni.

Að fitna er hæfileiki.

Það geta allir fitnað og við skulum ekki halda að það sé galli. Það að fitna er hæfileiki. Einn af okkar mörgu dásamlegu sem maðurinn hefur og sá sem hefur haldið í okkur lífinu í gegnum aldirnar. Þegar við veiddum mikið gátum við geymt forðann utan á okkur og þegar lítið veiddist gengum við á forðann. Það er eðlilegt ferli líkamans. Hins vegar var aldrei ætlunin að geyma of mikið utaná sér of lengi. Þegar við förum í megrun göngum við á höfuðstólinn og þurfum að skrúfa fyrir inntakið á meðan. Þá þarf að vera vel meðvitaður um það að borða lítið og oft, fá öll vítamín og steinefni. Sumum finnst óréttlátt að fitna aftur eftir að hafa lagt hart að sér til þess að grennast. En af hverju ætti útkoman að vera önnur ef fólk fer aftur í sama, gamla farið Fólk þarf að læra að hlusta á líkamann og finna sitt eigið jafnvægi í þessum efnum. Jafnvel hafa einn léttan dag eða fasta af og til, það er alls ekki óhollt, það er gott að gefa líkamanum hvíld og jafna skorið.

“Veldu ræktina eins og matinn þinn”

Ég fagna því að líkamsræktin sé komin til að vera. Tíminn fer aldrei aftur á bak. Við vinnum æ meiri kyrrstöðuvinnu þannig að við þurfum að halda í hreysti okkar með hreyfingu. Við erum jú með 600 vöðva sem við þurfum að hugsa um. En líkt og ég nefndi varðandi mataræðið, þá er hægt að velja gervisósu en það er líka hægt að búa hana til frá grunni upp á gamla mátann úr hreinum mat. Spurningin er bara hvort þú velur og hvað ætlum við að kenna afkomendum okkar? Hverju viljum við halda á lofti? Veldu ræktina þína með sama hugarfari og matinn. Hún þarf að vera ekta og gera þér gott til langframa. Ekki viljum við að fólk vakni upp um miðjan aldur verr á sig komið því það var í ræktinni í gamla daga, æfði með þvílíku offorsi að það skemmdi sig. Hvaða gagn er að því?

Líkamsræktin á ekki að vera tímabundin og fara út í öfgar í stuttan tíma og að svo fari fólk í frí restina af árinu.“ Bára segir ýmislegt hafa komið fram á jónarsviðið í ræktarbransanum í gegnum tíðina sem hún og aðrir dansarar hafa verið mishrifnir af. „Tískubylgjurnar hafa verið margar í þessum geira sem við höfum ekki allar tekið upp. Við reynum að þræða hinn gullna meðalveg þannig að við getum með góðri samvisku staðið með því sem við mælum með,“ segir Bára brosandi að lokum.