Hafðu samband

Heimilisfang: Lágmúli 9, 105 Reykjavík Sími: 581-3730 Netfang: jsb@jsb.is

+354-581-3730

jsb@jsb.is

Veistu svarið?

Veistu svarið?

Eftirfarandi eru 15 algengar spurningar sem tengjast lífsstílsbreytingum á borð við þær sem við erum að vinna með á TT námskeiðunum. Stutt svör fylgja en ekki hika við að leita frekari upplýsinga hjá okkur ef með þarf.

1. Hvaðan fáum við orkueiningar? Svar: Úr kolvetnum, próteinum og fitu.

2. Er betra að auka prótein á kostnað kolvetna þegar verið er að megra sig? Svar: Best er að minnka skammtinn en halda réttum hlutföllum: Kolvetni: 55- 60%, Prótein:15-20% og Fita: 30%.

3. Er ráðlegt að drekka ávaxtadrykki? Svar: Hreinn ávaxtasafi er í lagi, best er að hafa hann ferskan og gera hann sjálf. Verksmiðjuframleiddur safi er oftast með miklu magni af fruktósa (of miklum ávaxtasykri) og því bestur í hófi, í mesta lagi eitt lítið glas á dag.

4. Gefur pasta góða næringu? Svar: Pasta er kolvetnarík fæða líkt og kartöflur og hrísgrjón og best að borða það í hófi.

5. Er skynsamlegt að hafa nammidag einu sinni í viku? Svar: Sykur inniheldur engin næringarefni, aðeins orku og þess vegna best að nota hann í hófi, hvort sem það er á nammidegi eða einhvejum öðrum dögum. Magnið skiptir mestu máli, 500 gr af blandi í poka getur innihaldið allt að 1000 hitaeiningar.

6. Er brauð fitandi? Svar: Á TT-námskeiðunum leggjum við áherslu á að kalla mat hvorki fitandi né megrandi, því að það er fyrst og fremst ruglandi. Stór þáttur í að ná árangri er að skilja viðfangsefnið. Orkueiningar ráða holdarfarinu. Allt sem við borðum fram yfir þörf verður því fitandi hvort sem það er epli eða nammi. Ein brauðsneið kostar ca 80 hitaeiningar. Skynsamlegt er að miða við að hafa 4-5 gr af trefjum í hverjum í 100gr sem við látum ofan í okkur.

7. Hvað má ég fá mér margar orkueiningar á dag án þess að fitna? Svar: Orkuþörfin okkar, miðað við nútíma lifnaðarhætti, er talin vera um 2200-2700 he á dag.

8. Hvað má ég fá mér margar orkueiningar ef ég þarf að megra mig? Svar: Undir orkuþörf dagsins, svo að líkaminn byrji að vinna á forðanum.

9. Hvenær er ég of þung? Við hvað er miðað? Svar: Samkvæmt BMI stuðli erum við of þung þegar við erum 25 kg yfir hæstu tölu. Ef við förum meira en 30 kg yfir hæstu tölu þá er talað um offitu. Hæstu tölu finnurðu með því að draga metra frá hæðinni. Ef þú ert 1,70 á hæð og 95 kg þá ertu u.þ.b. 20 kg. of þung. Hæsta talan á að vera 70-75kg.

10. Er hollt að drekka mikið vatn? Svar: Vatnsdrykkja er vanmetin af sumum og ofnotuð af öðrum. Auðvitað fer það eftir aðstæðum, t.d ef fólk er að svitna mikið af áreynslu eða hita. Almennt er talið gott að drekka 1-2 lítra af hreinu vatni á dag. Á TT námskeiðunum tölum við um 2 lítra á dag, en allt of mikil vatnsdrykkja, t.d 5-6 lítrar á dag eða meira, er ekki hollt og getur skolað burt steinefnum og vítamínum úr líkamanum.

11. Er skynsamlegt að drekka orkudrykk áður en ég fer á æfingu? Svar: Orkudrykkir innihalda, eins og nafnið bendir til, orkueiningar. Þær eru í formi sykurs en innihalda líka örvandi efni og eru slíkir drykkir því alls ekki hollir, sérstaklega ekki fyrir ungt fólk í ræktinni, þar sem þeir geta orsakað hjartsláttartruflanir. Skynsamlegra er að borða banana fyrir æfingu.

12. Hvaða drykk er skynsamlegast að hafa með sér í ræktina? Svar: Hreint vatn, með eða án kolsýru, er best. Aðrir vatnsdrykkir sem innihalda bragðefni með ávaxtasýru, eða merktir E 330, eru eyðandi fyrir glerung tannanna og því betra að takmarka neyslu þeirra.

13. Þarf ég að borða 5 sinnum á dag til að halda brennslunni gangandi? Svar: Þú átt að borða 5 sinnum á dag til að láta þér líða betur, en brennslan ræðst af hreyfingunni. Ef þú vilt örva brennsluna er því réttara að að þú hreyfir þig meira og hálfgerð öfugmæli að tala um að borða til að brenna. Öll hreyfing útheimtir einhverja orku og jafnvel þótt við værum í þeim aðstæðum að þurfa að reyna mikið á okkur matarlaus, þá kostar puðið ekkert færri orkueiningar. Líkaminn tekur þær þá af forðanum ef hann fær þær ekki gegnum munninn.

14. Ef ég dett í nammið eða eitthvað annað óhóf er þá allt ónýtt? Svar: Nei það er aldrei neitt ónýtt, jafnvel þótt helgin hafi verið mjög „dýr“ kannski 3,000 hitaeiningar fram yfir þörf. Þá er bara að minnka inntökuna dagana á eftir og vera mjög létt á kostum hvað varðar orkueiningar. Þá geturðu t.d. borðað salat í aðalrétt eða grænmetissúpu, hollt og gott en orkulítið og þá þarf ekki nema tvo daga til að jafna metin. Góðu fréttirnar eru nefnilega þær að við fitnum ekki um leið og við borðum. Hér kemur 7 daga reglan að góðum notum: jöfnunin verður að eiga sér stað innan 7 daga. Ef þú borðar of mikið í dag, þá borðar þú minna á morgun. Svo einfalt er það. Ef þú frestar því um einhvern tíma, hálfan mánuð eða svo, þá ertu búin að framleiða splunkunýtt aukakíló!

15. Venst líkaminn því að fá of fáar orkueiningar? Verð ég stöðugt að takmarka þær? Svar: Nei, líkaminn starfar í stórum dráttum alltaf eins. Ef hann fær ekki nægar orkueiningar inn um munninn, þá gengur hann á forðann og ef hann er uppurinn, þá gengur hann á vöðamassann (hungursneyð). Þetta er það sem hafa ber í huga þegar við viljum minnka fituforðann. Þegar því ferli er lokið og viðkomandi vill halda holdafari sínu stöðugu, þá er orkuinntakan aukin að manneldismarkmiðum sem eru u.þ.b. 2200-2700 he. Hver og einn þarf að finna sín mörk með daglegu eftirliti, t.d. vigtinni. Hafa verður í huga að það er enginn „vandi“ að fitna aftur þótt kílóin sem fuku séu 10-20-30-40-eða 50. Ef við gefum bara hressilega í orkueiningainntökuna alla daga og innbyrðum t.d. 3500 he að meðaltali allt árið og hreyfum okkur sem minnst, þá er nokkuð víst að sú frammistaði færi viðkomandi góð 20 kíló!