Hafðu samband

Heimilisfang: Lágmúli 9, 105 Reykjavík Sími: 581-3730 Netfang: jsb@jsb.is

+354-581-3730

jsb@jsb.is

Viðtal við Berglindi í Vikunni

Sofnaði með þá hugsun að hún ætlaði að byrja á morgun.

Berglind Björgvinsdóttir fór að stunda líkamsrækt í JSB í byrjun árs 2012 og keyrir frá Akranesi til Reykjavíkur til að mæta í tímana. Með hreyfingu og breyttu mataræði hefur hún alls misst rúm 50 kíló á tæpum þremur árum.

Berglind er fædd og uppalin á Akranesi og starfar í Bjarnalaug og í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Hún æfir skotfimi og hefur verið í kjöri sem íþróttamaður ársins á Akranesi. „Þetta var á þeim árum sem ég var hvað feitust. Ég grínaðist oft með að skotfimi væri hin fullkomna íþrótt fyrir mig, gengur út á að hreyfa sig sem minnst. En að standa á sviði eftir að hafa náð ákveðnu markmiði en líða samt hörmulega var að hluta til sá hvati sem ég þurfti til að gera eitthvað í mínum málum. Mér leið hræðilega á sviðinu þegar íþróttamaður ársins var kjörinn,“ segir Berglind um upphaf þess að hún ákvað að snúa blaðinu við. Í byrjun janúar árið 2012 byrjaði hún í líkamsrækt hjá JSB og lætur ekki aftra sér að keyra 2-5 sinnum í viku á milli Akraness og Reykjavíkur til að sækja tímana. „Frænka mín hafði verið að keyra suður í tíma, hún hafði samband við mig í byrjun janúar og bauð mér að koma með sér. Hún fór voða varlega að mér þegar hún spurði mig hvort ég vildi koma með og sagði: „Ekki taka þessu illa en ég þarf að spyrja þig að svolitlu. Ég held að þú þurfir að gera eitthvað í þínum málum, værir þú til í að koma mér mér á TT-námskeið?“ Ég ákvað að stökkva strax á þetta, fannst eins og þetta væri mitt tækifæri, og kannski mitt síðasta, til að snúa við blaðinu.“ TT-námskeiðin, frá toppi til táar, fela í sér leiðbeiningar um mataræði, líkamsrækt, sjálfsstyrkingu, fundi, vigtun og mælingar. „Það eru þrír tímar í viku hjá hverjum hóp, fjölbreyttir og skemmtilegir með yndislegum kennurum. Í byrjun hvers tíma er vigtun og svo hópfundur einu sinni í viku. Þeir sem eru á TT-námskeiðunum hafa aðgang að lokuðu svæði á Netinu þar sem eru matarplan og fullt af góðum uppskriftum. Einnig er þeim sem eru á námskeiðinu frjálst að mæta í alla opna tíma. Ég var mjög „heppin“ að því leyti að ég sá strax árangur, fyrsta hálfa árið missti ég 26 kíló. Það hjálpaði mér að halda mér áfram á sömu braut. Eftir það fóru kílóin mun hægar af mér en þokaðist alltaf niður á við, hægt og bítandi. Í dag eru rúm 50 kíló farin,“ segir hún ánægð.

Fannst fólk dæma sig.

Hún segist alla tíð hafa upplifað sig með aukakíló. „En þau fóru virkilega að hlaðast utan á mig svona upp úr tvítugu, þá fór ég fljótlega yfir 100 kíló. Ég held að það hafi svo sem ekki verið nein sérstök ástæða fyrir því, mér þótti bara agalega gott að borða og þykir reyndar enn. Í dag er mataræðið þó mun hollara og ég reyni að gæta hófs.“ Áður hafði Berglind prófað danska kúrinn með nokkuð góðum árangri. „Árið 2006 hafði ég lést um 35 kíló en átti þá talsvert eftir til að klára dæmið. Um leið og ég hætti að fylgja kúrnum þá bara sprakk ég og þyngdist mjög hratt aftur. Þegar ég byrjaði í JSB var ég orðin um það bil 5 kílóum þyngri en þegar ég byrjaði í danska kúrnum á sínum tíma. Þegar ég var sem þyngst var ég farin að fela fyrir öðrum hvað ég borðaði. Þó að ég væri búin að borða pizzu, nammi og stæði alveg á blístri þá fékk ég mér meira ef mér var boðið. Allt til að þurfa ekki að segja hvað ég væri búin að borða. Ég þoldi ekki að borða fyrir framan aðra, fannst fólk vera að dæma mig.“ Áður en Berglind byrjaði í JSB leið henni mjög illa. Hún hafði verið að reyna að snúa blaðinu við sjálf í nokkra mánuði án þess að komast úr startholunum. „Ég hefði ekki mætt í þreksal eða líkamsrækt þótt mér hefði verið borgað fyrir það. Ég sofnaði með þá hugsum að á morgun myndi ég byrja, þá ætlaði ég að sleppa nammi, sleppa gosi og borða hollt. Yfirleitt var ég sprunginn um miðjan daginn, var svekkt út í sjálfa mig og hugsaði að þetta væri nú allt ónýtt hvort eð er svo að það væri eins gott að fá sér „smá“ nammi eða ís og byrja bara aftur á morgun. Þannig að í rauninni bara þetta endalaus hringrás.“

Gekk tuttugu sinnum á Akrafjall.

Berglindi var um megn að gera einföldustu hluti og ýmislegt sem hún veigraði sér við. „Ég var móð og másandi ef ég þurfti að labba upp stiga, kófsveitt eftir að skúra gólfið. Flestir hlutir sem krefjast hreyfingar voru erfiðir. Ég forðaðist að fara út og hitta vini, í fjölskylduboð og á vinnustaðagleði, allt sem krafðist þess að klæða sig upp á og gera sig fínan. Mér fannst ég aldrei fín og leið alltaf illa á svona skemmtunum. Hins vegar var ég lánsöm að því leyti að ég var ekki komin með neina heilsutengda sjúkdóma vegna offitu, en eflaust var það nú bara tímaspursmál. Ég var nokkuð hraust að öðru leyti en því að ég var allt of feit, var til að mynda ekki mikið frá vinnu eða því um líkt en varð þreytt af því að sinna dagsdaglegum hlutum.“ Líf Berglindar hefur breyst mikið þessi tvö ár, hún hefur miklu meiri orku og hefur sett sér krefjandi markmið sem hún hefur sigrað með prýði. „Ég hef í dag nóga orku, svona flesta daga allavega. Ef mig langar að prófa eitthvað að þá geri ég það bara og hef tekist á við ýmsar áskoranir. Sumarið 2012 setti ég mér það markmið, ásamt vinkonu minni, að ganga á Akrafjallið einu sinni í viku. Í lok sumars voru ferðirnar orðnar mun fleiri, eða rúmlega tuttugu. Fyrsta ferðin tók um fjóra tíma en í dag fer ég þetta á um það bil einni klukkustund. Það hefur gefið mér mikið að sjá árangurinn á þennan hátt líka. Í fyrra fór ég að hlaupa, skellti mér í Reykjavíkurmaraþonið í ágúst og hljóp 10 kílómetra. Svo er ég í frábærum hópi á Netinu sem setur sér hinar og þessar mánaðaráskoranir. Einn mánuðinn er kannski áhersla á planka og svo á armbeygjur eða hnébeygjur. Við erum voða duglegar að hvetja hver aðra áfram. Ég get alveg lofað því að þetta hefði ég ekki gert fyrir nokkrum árum síðan.“

Tók mataræðið í gegn.

Til þess að léttast segir Berglind að nauðsynlegt sé að breyta mataræðinu. „Ég er dugleg að prófa hitt og þetta en það skiptir mig miklu máli til að maturinn verði spennandi. Ég er óttaleg dellukona, núna fæ ég dellur fyrir hinum og þessum fræjum, hnetum, ávöxtum og grænmeti í staðinn fyrir nýjustu gerðinni af snakki eða súkkulaði. Ég hef prófað ýmislegt til að finna út hvað fer vel í mig og mér líður vel af. Stöku sinnum fæ ég með kökur og annað gúmmelaði, ég reyni að gera það ekki of oft enda líður mér yfirleitt ekki vel eftir svoleiðis veislur. Maginn er orðinn vanari einfaldari mat.“ Fjölskylda Berglindar styður vel við bakið á henni og til dæmis hefur móðir hennar farið með henni í tímana í JSB til að hún þurfi ekki að keyra ein til Reykjavíkur. „Hún er líka dugleg að bjóða mér í mat og eldar þá yfirleitt eitthvað hollt og gott. Pabbi á það líka til að gefa mér svip ef honum finnst ég vera að ganga eitthvað óhóflega á kökurnar hans,“ segir hún hlæjandi. „Einnig er ég svo heppin að eiga frábæra vinnufélaga og til dæmis var ein svo indæl að skipta við mig á vöktum þegar ég átti kvöldvaktir til þess að ég kæmist til Reykjavíkur í leikfimi. Þetta gerði hún fyrir mig í tvö ár sem var algerlega ómetanlegt en þannig gat ég haldið rútínunni og farið mínar ferðir í JSB.“ Hún segist hafa verið að kynnast sjálfri sér upp á nýtt í þessari vegferð og gera hluti sem hana langaði að gera en fannst hún ekki geta, hvort sem það var af líkamlegum ástæðum eða skorti á sjálfstrausti. „Mig hefur alltaf langað að vera í góðu formi, labba á fjöll, geta gert armbeygjur og hlaupið. Meira að segja þegar ég var næstum því 130 kíló þá fannst mér þetta hrikalega töff, að vera líkamlega hraustur og sterkur er aðdáunarvert. Það er til dæmis draumur hjá mér að geta einn daginn tekið upphífingar, en enn sem komið er það fjarlægur draumur. Einnig er ég svolítið að uppgötva minn stíl, til dæmis fatalega. Áður keypti ég bara það sem ég passaði í þótt mér þætti það sjaldnast fallegt. Yfirleitt var ég svolítið ömmuleg, enda var ég einu sinni spurð hvort systir mín, sem er tveimur árum yngri en ég væri dóttir mín. Ég var tvítug.“

Hliðarspor eru leyfileg.

Það sem Berglindi hefur þótt erfiðast er að halda sig á réttri braut í mataræðinu. „Að losna við þennan „allt eða ekkert“ hugsunarhátt. Mér finnst hreyfingin ferlega skemmtileg og mér finnst gaman að prófa hinar og þessar áskoranir en mér finnst voða gott að borða. Svo er líka hrikalega erfitt þegar maður er búinn að djöflast í ræktinni og mataræðinu og sér ekki árangurinn koma strax, þá er það þolinmæðin sem gildir. Halda áfram og muna að meta alla hina hlutina sem ekki eru taldir í kílóum. Að geta farið út að hlaupa, í handahlaup og jafnvel splitt, það gefur manni mikið að geta eitthvað núna sem var ekki möguleiki áður. Ég á líka fullt af fyrirmyndum. Kennararnir í JSB, íþróttaálfarnir í vinnunni, konurnar sem eru að standa sig vel á námskeiðunum hverju sinni. Svo eru líka nokkrir sem að eru með áhugaverðar pælingar á Netinu. Mér finnst til dæmis gaman að fylgjast með Röggu Nagla og sumir frasarnir hjá henni eru brúkaðir reglulega. Einnig er hún Sólveig úr Heilsuborginni með áhugaverðar pælingar um sína vegferð.“ Hún segir að viðbrögð fólk við lífsstílsbreytingu sína hafi almennt verið nokkuð góð og hvetur aðra til að feta sömu leið. „Bara láta vaða. Ekki gleyma að hafa gaman af því sem að þú ert að gera. Halda alltaf áfram og ekki gefast upp þótt þetta sé erfitt eða ef þú tekur hliðarspor, það er allt í lagi, þú mátt það. Þú bara heldur áfram og þó að þér finnist hlutirnir gerast hægt, mundu þá að skjaldbakan komst í mark. Ég gerði markmiðaspjald fyrir sjálfa mig. Verðlaunaði mig með litlum verðlaunum við hver fimm kíló sem fóru. Þannig sé ég hversu langt ég er komin og hversu mikið er eftir. Stundum hjálpar að sjá hversu langt ég hef náð í stað þess að festast í þeirri hugsun hve mikið sé eftir. Fram undan er svo bara að halda áfram á þessari braut. Klára mitt takmark. Halda áfram að hreyfa mig, finna nýjar áskoranir og hafa gaman af því sem ég er að gera hverju sinni,“ segir þessi orkumikla og flotta fyrirmynd að lokum.

„En að standa á sviði eftir að hafa náð ákveðnu markmiði en líða samt hörmulega var að hluta til sá hvati sem ég þurfti til að gera eitthvað í mínum málum.“

„Ég hefði ekki mætt í þreksal eða líkamsrækt þótt mér hefði verið borgað fyrir það. Ég sofnaði með þá hugsum að á morgun myndi ég byrja, þá ætlaði ég að sleppa nammi, sleppa gosi og borða hollt.“

Sumarið 2012 setti ég mér það markmið, ásamt vinkonu minni, að ganga á Akrafjallið einu sinni í viku. Í lok sumars voru þær orðnar mun fleiri ferðirnar, eða rúmlega tuttugu.

„Stundum hjálpar að sjá hversu langt ég hef náð í stað þess að festast í þeirri hugsun hve mikið sé eftir.“

Texti: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. Myndir: Aldís Pálsdóttir. Förðun og stílisering: Kristjana Rúnarsdóttir. Fatnaður: Verslunin Bjarg og Ozone, Akranesi.