Hafðu samband

Heimilisfang: Lágmúli 9, 105 Reykjavík Sími: 581-3730 Netfang: [email protected]

+354-581-3730

[email protected]

Saga JSB

Jazzballettskóli Báru var formlega stofnaður árið 1967 í Suðurveri við Kringlumýrarbraut í Reykjavík og hefur starfað óslitið síðan. Stofnandi skólans og fyrsti kennari var Bára Magnúsdóttir. Áður hafði Bára haldið námskeið um tveggja ára skeið sem nutu mikilla vinsælda miðað við þann fjölda unglinga sem þau sótti. Þessi áhugi sýndi ljóslega að íslenska æsku þyrsti í nýjungar á sviði tómstunda og lista og varð sá hvati sem lá að baki stofnunar skólans.

Frá byrjun sóttu bæði kynin skólann þótt stúlkur væru ávallt í miklum meirihluta. Mikið kynningarstarf fór í hönd og skólinn stóð fyrir fjölda nemendasýninga. Stofnaður var Dansflokkur JSB sem sýndi víðs vegar um borgina og fór auk þess í sýningarferðalög um landið. Illa hélst þó á karlpeningnum og hann hvarf til annarra starfa, sennilega vegna skorts á framtíðar atvinnumöguleikum í dansleikhúsi hér á landi. Einn þeirra varð þó atvinnudansari í Þýskalandi um margra ára skeið og aðrir tveir kenndu við skólann.

Með tilvist skólans varð til nýtt athvarf fyrir börn og unglinga til tómstunda og listsköpunar. Á tuttugusta starfsári skólans 1987, var stofnaður atvinnudansflokkurinn Íslenski jazzballettflokkurinn. Starfaði hann í tvö ár og setti upp fimm sýningar eftir jafn marga danshöfunda. Sótt var um fjárveitingu fyrir flokkinn, en hún fékkst ekki og var því ekki unnt að halda starfseminni áfram. Tveir af 14 dönsurum flokksins fengu þó vinnu í erlendum dansflokkum og enn starfa nokkrir við kennslu.

Með árunum hafa orðið til góðir dansarar hérlendis og er óhætt að fullyrða að íslensk listdanssköpun sé runnin undan rifjum okkar eigin menningar. Áhrifin má sjá víða í félagsstarfi grunn- og framhaldsskólanema, þar sem frjáls danssköpun skipar stóran sess og mikill sjónarsviptir væri af ef hennar nyti ekki við.